top of page

,,Við skiptum nánast öllu heima fyrir jólin"

Þóra Val­ný Yngva­dótt­ir at­hafna­kona er ein mesta áhuga­mann­eskja um jól­in sem fyr­ir­finnst að mati vina henn­ar og ætt­ingja. Fyr­ir jól­in fer allt út úr hús­inu nema tvö mál­verk sem fá að vera á sín­um stað. Hún gerði 360 sör­ur á fjór­um klukku­stund­um með syst­ur sinni í aðdrag­anda jól­anna þar sem dúndr­andi jóla­tónlist og skemmti­leg­heit voru í há­veg­um höfð.


„Árið 2020 hef­ur verið mikið breyt­inga­ár og ég hef notið þess að eiga meiri tíma fyr­ir mig, áhuga­mál­in og að kort­leggja framtíðina. Ég er núna að ljúka fram­halds­námi í markþjálf­un hjá Profect­us og stefni á að halda áfram að markþjálfa og halda mann­bæt­andi nám­skeið. Ég lauk 1. stigi í markþjálf­un árið 2014 og get með sanni sagt að það sé eitt gagn­leg­asta nám sem ég hef farið í. Markþjálf­un snýst um að bera fulla virðingu fyr­ir viðmæl­and­an­um og hlusta og spyrja spurn­inga, frek­ar en að segja hon­um hvað hann á að gera. Þessi sam­skipta­hæfni hef­ur nýst mér vel og ég hef haldið mörg nám­skeið þar sem þetta er haft að leiðarljósi.

Fram­halds­námið reynd­ist viðameira en ég hafði haldið og hef­ur það komið mér mjög gleðilega á óvart, ég er al­sæl með hvað það hef­ur kennt mér mikið og ég er hlaðin nýj­um verk­fær­um sem munu nýt­ast mér um ókomna tíð. Ég er þessa dag­ana að setja upp dag­skrána fyr­ir nýtt ár af nám­skeiðum og markþjálf­un. Ég er með nám­skeið í lífs­stíls­breyt­ing­um, per­sónu­legri stefnu­mót­un og einnig nokk­ur heilsu­tengd nám­skeið, þar má sér­stak­lega nefna fjár­hags­lega heilsu. Ég er lærður fjár­málaráðgjafi og eitt af því fyrsta sem ég tók eft­ir þegar ég var að hitta viðskipta­vini var van­mátt­ar­til­finn­ing þeirra gagn­vart fjár­mun­um sín­um. Það er mik­il­vægt að bæta úr því; van­mátt­ar­til­finn­ing er slæm fyr­ir sjálfs­mynd okk­ar og fjár­mál­in eru eitt af lyk­il­atriðunum í vellíðan okk­ar. Við höf­um lang­flest mikið fyr­ir því að afla fjár­muna og því er mik­il­vægt að við séum með verk­færi og þekk­ingu til að ráðstafa pen­ing­um þannig að þeir þjóni okk­ur sem allra best. Á öll­um nám­skeiðum sem ég held vil ég vinna með það mark­mið sem þátt­tak­and­inn set­ur sér, þannig að hann fái sem mest út úr nám­skeiðinu og nám­skeiðið færi hon­um var­an­leg­ar fram­far­ir í hans lífi.“


Skreyt­ing­arn­ar úti fara upp í októ­ber

Þóra Val­ný byrj­ar vana­lega að skreyta inni hjá sér í nóv­em­ber og að mark­miðið sé alltaf að vera búin að skreyta allt fyr­ir fyrsta dag aðvent­unn­ar.

„Við skipt­um út nán­ast öllu í hús­inu fyr­ir jól­in. Við pökk­um niður flest­um stytt­um, kerta­stjök­um og því sem er uppi við venju­lega, einnig pökk­um við niður flest­um mynd­um nema tveim­ur mál­verk­um sem náðarsam­leg­ast fá að vera á sín­um stað. Það er mikið til­stand og allt úti um allt þegar verið að taka jóla­skraut upp úr köss­um og pakka niður venju­lega dót­inu. Einnig erum við með nokk­ur borð sem ein­göngu eru notuð um jól­in til að setja á jóla­skraut og því þarf svo­lítið að end­urraða heim­il­inu. Þetta er heil­mik­il aðgerð sem tek­ur yf­ir­leitt heila helgi með til­heyr­andi jóla­tónlist og gleði. Við end­um þó oft á að ákveða að við ætl­um að gera aðeins minna á næsta ári, en svo verður auðvitað ekk­ert úr því.“

Vetr­ar­ljós fjöl­skyld­unn­ar fara vana­lega upp í októ­ber.

„Það eru ljós­in utan á húsið og í glugg­ana. Við leyf­um þeim líka að vera þar til versta skamm­deg­inu lýk­ur, svona fram í mars eða þar til við erum far­in að vakna í björtu. Ég er alltaf að vinna í að fá sem flesta með mér í þetta því það er svo dimmt á land­inu okk­ar góða. Þá skipt­ir engu hvort ljós­in séu í lit eða hvít, raun­ar má segja að það sé bara enn betra að leyfa lit­ríku ljós­un­um að vera áfram. Því lit­rík­ara því betra. Það lífg­ar upp á fyr­ir okk­ur öll og dreg­ur úr lík­um á leiða á þess­um dimm­asta tíma árs­ins.

Mér finnst mik­il­vægt að hafa næg­an tíma til að njóta á aðvent­unni og reyna að hitta eins mikið af vin­um og vanda­mönn­um og mögu­legt er til að eiga góða stund sam­an í jólagleði. Þá er svo gott að vera búin að kaupa flest­ar gjaf­irn­ar og skreyta allt, svo hægt sé að slaka og njóta. Ég baka bara eina sort og það eru sör­ur. Ég og syst­ir mín eig­um alltaf sam­an skemmti­lega kvöld­stund þar sem við bök­um marg­falda upp­skrift, njót­um þess að vera bara tvær, spjöll­um og fífl­umst. Dúndr­um jóla­tónlist á, setj­um í gang færi­band og ger­um frá upp­hafi til enda á einu kvöldi. Í ár gerðum við 360 sör­ur á fjór­um klukku­stund­um en aðal­málið er að á meðan eig­um við inni­lega gæðasystra­stund.

Ég kaupi jóla­gjaf­irn­ar allt árið og geymi í „gjafa­skápn­um“. Þegar fer að hausta fer ég yfir skáp­inn og skrái hjá mér hvað vant­ar. Ég held skrá yfir jóla­gjaf­irn­ar í excel og get því séð hvað ég gaf viðkom­andi síðastliðin fimm ár og reyni að hafa þetta ekki alltaf það sama. Ég er ekki mjög stór­tæk í jóla­gjöf­um. Ég er alin upp við að það er hug­ur­inn sem skipt­ir máli. Nú orðið reyni ég að hafa þetta eitt­hvað sem fólk get­ur neytt eða nýtt, bara eitt­hvað lítið og sætt til að gleðja þá sem mér þykir vænt um.“


Alin upp við lát­laus­ari skreyt­ing­ar en hún er með núna

Hvað ger­ir það að verk­um að þú elsk­ar jól­in svona mikið?

„Fyrstu ævi­ár­in ólst ég upp í sveit fyr­ir norðan og það var ekki mikið um óþarfa dags dag­lega. Þegar jól­in komu lifnaði yfir öllu; það var sett upp smá lit­ríkt jóla­skraut inn­an­dyra, svo feng­um við krakk­arn­ir að skreyta fjár­hús­in með þessu líka fína jóla­skrauti sem voru reynd­ar bara afrif­ur af jólapapp­ír sem við hengd­um á nagla á görðunum í fjár­hús­inu. Ég vil helst ekki segja frá því, því þá hljóma ég svo forn, en það kom ekki raf­magn í minni sveit fyrr en árið 1971 og þá var ég orðin fimm ára, svo að ekki voru jóla­ljós­in til að skemmta sér yfir. Eitt var samt alltaf gert og það var að skreyta loft­in, þá voru sett­ir jóla­streng­ir, lit­rík­ir mjög, og strengt þvers og kruss um loft­in. Þetta fannst mér æðis­legt og horfði heilluð á lita­dýrðina. Þannig elst ég upp við að gera mikið úr jól­un­um. Mamma var mikið jóla­barn. Okk­ar bestu stund­ir sam­an voru þegar við vor­um að jólast eitt­hvað sam­an, búa til jóla­skreyt­ing­ar og skemmta okk­ur yfir alls kon­ar jóla­dóti.“

Áttu mikið af jóla­dóti og kaup­ir þú þér skraut ár­lega?

„Það er óhætt að segja að það sé slatti til. Kass­arn­ir fylla eitt háa­loft og svo er mik­il fyr­ir­ferð í stóru hlut­un­um sem fara í garðinn. Maður­inn minn sér um ut­an­húss­skreyt­ing­arn­ar og metnaður hans eykst með ári hverju. Hann á það til að fara á janúar­út­söl­urn­ar og síðan á næstu jól­um birt­ist eitt­hvað nýtt í garðinum sem hann keypti al­veg „óvart“.

Eina sem er fast að fá nýtt á hverju ári er jóla­stjarn­an sem ég fæ yf­ir­leitt í af­mæl­is­gjöf í nóv­em­ber og ein­mitt ræs­ir jóla­stússið af stað. Ann­ars erum við að reyna að vera ekki að bæta miklu við því nú finnst mér öll pláss á heim­il­inu vera orðin fal­lega skreytt, þannig að þetta er orðið nokkuð gott.

Nýrri kyn­slóðir er miklu míni­malísk­ari í þessu og það verður fjör þegar ég fer á elli­heim­ilið og fer að reyna að koma jóla­dót­inu mínu út á unga fólkið. Þau munu vænt­an­lega flýja land til að sleppa.“Hvað get­ur þú sagt mér um upp­á­hald­sjó­la­skrautið þitt?

„Það er erfitt að gera upp á milli. Ég hef voða gam­an af þessu öllu. Mér finnst jólaþorp af öll­um stærðum og gerðum ægi­lega skemmti­leg, líka alls kon­ar jóla­svein­ar. Mér finnst líka alltaf gam­an að sjá gam­alt og snjáð jóla­skraut sem á sér mikla sögu.

Einna helst held ég upp á jóla­skraut sem teng­ist for­eldr­um mín­um sem eru bæði fall­in frá. Pabbi gaf okk­ur öll­um systkin­un­um afar sér­stakt jóla­hús fyr­ir mörg­um árum, eig­in­lega áður en ég fór að búa, og það hef­ur alltaf fylgt mér. Einnig gaf mamma okk­ur systkin­un­um eins jóla­kirkju. Þetta var mjög vin­sælt og ég man sér­stak­lega að hún fékkst í Miklag­arði. Það er svo langt síðan! Þetta er svona ekta gam­aldags kirkja með rauðu þaki, kirkjut­urni og ljósi, ég skreyti síðan í kring­um hana með trjám, snjó og stytt­um af börn­um að leik.“

Held­ur í þá hefð að hafa jóla­dag mjög af­slappaðan

Get­ur þú sagt mér frá áhuga­verðum jóla­hefðum?

„Ein skemmti­leg jóla­hefð sem ég hafði þegar ég bjó ein var að eiga mjög huggu­leg­an dag á jóla­dag. Mér finnst svaka­lega gam­an að sýsla í mat og elska að gera smá­rétti. Þannig að ég bjó mér til lítið borð af upp­á­hald­sjó­la­smá­rétt­un­um mín­um. Þarna mátti finna hrein­dýrapaté með sultu, hrá­skinku­sal­at með mel­ónu, reykt­an lax með rjómaþeyttri eggja­hræru, kalt hangi­kjöt með laufa­brauði, osta­fyllt­ar tartalett­ur, kald­an ham­borg­ar­hrygg með eplasal­ati, ris a l'am­ande, enskt ávaxtapæ með vanillusósu og alls kon­ar. Þetta var auðvitað mis­mun­andi frá ári til árs, en fólki fannst þetta mjög furðulegt. Ég læt það ekk­ert á mig fá, eins og ein­hleyp­ir megi ekki líka borða góðan mat! Ég vann mikið á þess­um tíma, var sjald­an heima hjá mér og ég bara naut þess að vera þenn­an eina dag heima hjá mér inn­an um jóla­dýrðina, stússa í eld­hús­inu, eiga full­kom­lega ró­leg­an dag, lesa bók, horfa á þátt og narta í góðgætið þess á milli.

Núna eig­um við Júlli ró­leg­an dag sam­an. Við erum ekki með hlaðborð samt en för­um út í göngu­túr ef það er fal­legt veður, heils­um upp á ætt­ingja og plöt­um ein­hvern til að bjóða okk­ur í hefðbundið jóla­dags­hangi­kjöt. Mér þykir svaka­lega vænt um jóla­hefðir og finnst mik­il­vægt að hafa þær í heiðri, en jafn­mik­il­vægt að end­ur­skoða þær. Þannig að ef eitt­hvað er orðið íþyngj­andi og farið að valda stressi er um að gera að leita nýrra leiða.“
Comments


bottom of page