Þessi viðtal birtist á mbl.is 20. janúar 2022 og er úrdráttur úr viðtali sem var birt í HEILSA, fylgiblaði Morgunblaðsins 4. janúar 2022.
Þóra Valný Yngvadóttir stjórnendaráðgjafi stendur fyrir detox-dvöl í Hveragerði. Hún segir mikilvægt að gefa líkamanum hvíld einu sinni til þrisvar á ári, svo hann geti lagfært sig.
Hún er um þessar mundir að halda ýmiss konar námskeið, tengt fjármálum og heilsu. Árið 2021 var gott ár fyrir hana þótt margt hafi farið öðruvísi en ætlað var.
„Þegar heilsan er góð og ég get stigið fram úr rúminu, staðið í fæturna og teygt úr mér, þá finnst mér það stórskotlegt. Ég varð 55 ára í fyrra og upplifði það sem ákveðin tímamót. Það fyllir mig þakklæti að fá að eldast, því á þessum tíma horfði ég á eftir jafnaldra vini, sem mun ekki fá fleiri afmælisdaga. Þannig verður í raun hamingjan einfaldari eftir því sem maður verður eldri.“
„Á árinu 2022 bíða fullt af spennandi ævintýrum.Við kærustuparið munum gera þriðju tilraun til að gifta okkur. Ég er nú bara búin að bíða eftir að giftast honum síðan ég var níu ára, þannig að það verður ekkert mál að bíða í tvö ár til viðbótar.
Svo hef ég nýlega gengið til liðs við Hoobla, samfélag sjálfstætt starfandi sérfræðinga, og hlakka til að vera öflug innan þess.“
Þóra hefur mikla trú á föstum og hefur alltaf fastað annað slagið í tvo til þrjá daga. „Í upphafi árs 2020 fór ég í fyrsta skipti í langt detox því mig hafði alltaf langað að prófa að fasta í lengri tíma og sjá hvernig mér liði af því og hvernig þetta væri. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað mér leið vel á detox-mataræðinu. Það gerir mjög mikið fyrir mann að kúpla sig svona alveg út og vera algerlega í núinu að hugsa um sjálfan sig. Mér fannst þetta alveg dásamlegt að bara njóta þess að vera í rólegheitum, fara í gönguferðir, sund, leikfimi, drekka tebolla með sjálfri mér, lesa bók ótruflað, sofa vel og hvílast almennilega.
Að lokinni detox-dvölinni fannst mér þessi reynsla standa með mér í langan tíma. Mér fannst meltingin betri, líkaminn á einhvern hátt sterkari og svo svaf ég svo miklu betur. Í fyrra var ég svo að leita að því að komast í detox og þannig varð til samstarfið við Hótel Örk. Þar hafa verið haldin detox-námskeið um margra ára skeið og því byggst upp mikil þekking á detox-mataræði og hvernig best er að hafa það þannig að það sé bragðgott og hollt. Þar eru heitir pottar, sundlaug, gufa og afþreyingarherbergi. Sem hluta af detox-námskeiðinu eru nuddari og cranio-meðferðaraðilar á staðnum sem eykur enn á upplifunina. Auk þess eru margir leiðbeinendur sem koma inn á námskeiðið með núvitund, leikfimi, jóga og margt fleira.“
Þóra segir að heilsan sé að hennar mati ein af þremur lykilstoðum lífshamingjunnar. „Hamingjan er að miklu leyti viðhorf en þau þrjú utanaðkomandi atriði sem skipta lykilmáli eru öryggi, ást og heilsan. Ef eitt af þessu gefur sig, þá hefur það strax áhrif á hina þættina og gerir okkur erfitt um vik með lífshamingjuna. Ég hef reynt þetta á eigin skinni, þegar ég fótbrotnaði illa fyrir þremur árum, þegar ég var í útlöndum þar sem heilbrigðisþjónusta var mjög léleg, sem gerði það að verkum að ég þjáðist mikið og leið mjög illa. Ég var lengi að jafna mig á því. Heilsan þarf að vera í fyrirrúmi og þótt ég muni seint kalla mig fyrirmyndarheilsuveru, þá hugsa ég eins vel um hana og ég get. Ég styðst við 20/80 regluna og stefni á að standa mig vel 80% af tímanum og vera stöðugt að gera betur.“
Hvað gerir þú fyrir þig daglega?
„Það er vatnsdrykkja og þakklæti. Ég hef vanið mig á að byrja alla daga á vatni og lifi á því fram að hádegi og það er ekki fyrr en eftir hádegismatinn sem fyrsti kaffibolli dagsins er tekinn. Ég geri þakklætisæfingar daglega, eiginlega allan daginn er ég þakklát fyrir lífið, heilsuna, vatnið úr krananum, hreina loftið og fleira. Ég enda alltaf daginn á að fara yfir þakklæti dagsins og hrósa mér, þakklæti fyrir hvað gekk vel í dag og hrós fyrir hvað ég gerði vel í dag. Mér finnst frábært að byrja daginn á að fara í Hress, ég bara finn hvað ég er miklu hressari þegar ég mæti í leikfimistímana mína þar. Eitt af áramótaheitunum mínum er að gera þetta oftar fyrir mig svo ég fari inn í daginn í mínu besta tilfinningalega ástandi og þá verður dagurinn góður.“
Mikilvægt að vera vera sinn besti vinur
Hversu miklu máli skiptir að huga að heilsunni?
„Þegar kemur að heilsunni þá hugsa ég hana sem fjórþætta; mataræði, hreyfing, hvíld og sjálfsvinsemd. Ekkert af þessu er í sjálfu sér mikilvægara en annað. Ef ég ætti að velja eitt sem það allra mikilvægasta þá er það sjálfsvinsemdin, án hennar getur ekkert af hinu í raun orðið gott. Á detox-námskeiðinu hjá mér er farið jafnt yfir þessa fjóra þætti og enginn fær að fara heim af námskeiðinu fyrr en hann hefur lofað mér að vera sinn eigin besti vinur til framtíðar.
Ég hef orðið mikið vör við það að fólk er almennt óánægt með sig. Flestum finnst að þeir þurfi að hreyfa sig daglega og vera í þyngd samkvæmt ákveðnum stöðlum, annars séu þeir ekki að standa sig. Mér finnst að almennt þurfi að leggja meiri áherslu á mikilvægi þess að hugsa um heilsuna á sínum eigin forsendum. Þó að jú, rannsóknir sýna að ofangreint sé kannski best fyrir alla, þá er ekkert víst að það henti öllum. Því skiptir miklu máli að fólki gleðjist yfir öllu sem það gerir vel fyrir sjálfan sig, að fara út að ganga einu sinni í viku er klárlega miklu betra heldur en aldrei og því á að hrósa sér fyrir það. Að borða hollt einn dag í viku er líka betra en aldrei og það má líka hrósa sér fyrir það. Því meira sem þú hrósar þér fyrir það sem þú gerir, því líklegri ertu til að gera meira af því og þannig auka góðar venjur og bæta heilbrigði. Í sjálfsvinsemd felst að leggja áherslu á það sem þú gerir vel og styrkleika þína, hrósa þér og vera þakklátur. Aðeins þannig gerir maður meira af því góða og nær þeim árangri sem maður vill og blómstrar.“
Hvað reynir þú að forðast að gera?
„Ég reyni að forðast að vera vond við mig. Ég reyni að forðast að setja mér of háleit markmið sem leiða óhjákvæmilega til vonbrigða. Ég ráðlegg öllum mínum viðskiptavinum að setja sér hófleg markmið, sem dæmi fara í hreyfingu tvisvar í viku og þá áttu fullt hrós inni þegar þú gerir það, frekar en að setja sér markmið um þrisvar í viku og svo kemstu bara tvisvar og þá koma vonbrigðin og niðurrifið mikið.
Ég reyni að forðast að detta í hreyfingarleysi. Ég finn það strax á geðslaginu, orku og eiginlega öllu, ef allt í einu er liðin vika án hreyfingar, þá bara versnar allt hjá mér.“
Comentarios